Njóttu þess að læra svo lengi sem þú lifir
Lífið er eitt stórt lærdómsferli. Daglega lærum við eitthvað nýtt: af reynslunni, með því að lesa góðar bækur, sækja námskeið eða hlusta á fyrirlestra. Við erum stöðugt að bæta við okkur þekkingu.
En þekking ein og sér er ekki nóg. Til að hún verði að raunverulegum breytingum þurfum við að breyta henni í visku – þannig að hún verði hluti af daglegu lífi okkar. Þekking sem við nýtum ekki er lítils virði.
Þekking án aðgerða verður aldrei meira en þekking
Hvernig breytum við þekkingu í visku? Það byrjar með því að líta inn á við. Stundum þarf að endurmeta gömul viðhorf og venjur til að skapa pláss fyrir breytingar. Þegar við lítum inn á við og einbeitum okkur að því sem þarf að breytast, opnast leiðir að raunverulegum árangri.
Við getum ekki gert hlutina á sama hátt og áður og búist við nýjum niðurstöðum. Fyrsta skrefið er oft það erfiðasta, en með hverju skrefi verður ferlið auðveldara.
Til að skapa raunverulegar breytingar þurfum við að aflæra það gamla, læra upp á nýtt og tileinka okkur nýjar leiðir.
Mistök eru dýrmæt tækifæri
Mistök eru hluti af hverri vegferð. Þau gefa okkur dýrmætar upplýsingar og tækifæri til að vaxa. Mistök segja ekki: „Þér hefur mistekist,“ heldur: „Þetta gekk ekki – hvað get ég lært af því?“
Þegar við beinum athyglinni að möguleikum í stað hindrana, eflum við getu okkar til að halda áfram og finna nýjar lausnir. Mistök eru kennarar – ekki óvinir.
Fullkomnunarárátta og rétti tíminn
Fullkomnunarárátta og frestunarárátta fara oft saman. Ef við bíðum eftir því að allt sé fullkomið, verðum við stöðugt föst í biðstöðu. Rétti tíminn kemur ekki af sjálfu sér – hann kemur þegar við ákveðum að hann sé kominn.
Eina sem við vitum fyrir víst í þessu lífi er að það verða stöðugar breytingar. Vilt þú taka þátt í breytingunum með því að efla þig, vaxa og líta til baka með stolti? Eða vilt þú sitja eftir og horfa til baka með eftirsjá yfir því sem þig langaði að gera en gerðir aldrei?
Þú þarft ekki að þekkja alla leiðina áður en þú leggur af stað. Veldu fyrsta skrefið og taktu það. Þegar þú hefur hafið ferðina, munu fleiri leiðir og tækifæri opnast. Það fyrsta skrefið er lykillinn að næsta áfanga.
Hungur til vaxtar: Leiðin að visku
Ef þú finnur fyrir löngun til að vaxa og læra, er það fyrsta skrefið. En farðu lengra:
Þekking: Lærðu eitthvað nýtt.
Tileinkun: Gerðu þessa þekkingu að hluta af lífi þínu.
Fyrirmynd: Með því að nýta nýja hæfni, verður þú fyrirmynd fyrir aðra.
Endurgjöf: Taktu á móti endurgjöf með auðmýkt. Jákvæð endurgjöf staðfestir árangur þinn, en uppbyggileg gagnrýni hjálpar þér að vaxa enn frekar.
Lokaorð
Lífið er ferðalag lærdóms. Mistök, áskoranir og það að sigra sjálfan sig eru allt hluti af því að vaxa og finna sitt besta sjálf. Mundu að vegferðin er það sem skiptir mestu máli. Njóttu hennar og lærðu af hverju skrefi – því þannig finnur þú styrk og þroska til að verða besta útgáfan af sjálfri/um þér.
Comments