top of page

Sambandið sem við eigum við okkur sjálf!




Sambandið sem við eigum við okkur sjálf – grunnurinn að öllu öðru

Hversu oft hefurðu staldrað við og hlúð að sambandinu sem þú átt við sjálfa þig? Sambandið sem þú átt við aðra – fjölskyldu, vini, samstarfsfélaga – er vissulega dýrmætt, en sambandið sem þú átt við sjálfan þig er líklega það allra mikilvægasta. Það er grunnurinn að öllum öðrum þáttum í lífinu. Þegar þú byggir það á ást, kærleika og virðingu, þá breytist allt.


Árið 2006 hófst mín vegferð í sjálfsrækt. Þá áttaði ég mig á því að til þess að lífið mitt gæti blómstrað þyrfti ég að byrja á innri vinnu. Þessi vegferð hefur síðan þá verið full af uppsveiflum og lægðum, eins og gengur og gerist í ferli sem þessu. Síðustu tvö ár, og þá sérstaklega árið 2024, ákvað ég hins vegar að leggja alla mína orku í að efla þetta mikilvæga samband – sambandið við sjálfa mig. Þetta var vegferð sem var bæði krefjandi og sársaukafull, en jafnframt ótrúlega gefandi, spennandi og lærdómsrík.


Þegar ég lít til baka sé ég að árið 2024 var eitt af mikilvægasta ári í lífi mínu. Það var dýrmætasta gjöf sem ég gat gefið sjálfri mér – ár þar sem ég lærði meira um sjálfa mig en nokkru sinni fyrr. Fyrir það er ég gríðarlega þakklát.


Hvað lærði ég?

Ég lærði að hlusta – ekki bara á umheiminn, heldur á sjálfa mig. Innsæið mitt, sem áður hafði oft verið bælt niður í hraða lífsins, fékk loksins pláss til að koma fram í dagsljósið. Ég fann hvernig það varð að traustum vegvísi, sem leiðbeindi mér í átt að því sem er rétt fyrir mig. Eftir langan tíma í ósjálfráðum ákvörðunum fann ég hvernig innsæið gaf mér skýr svör, bæði í persónulegu lífi og starfi.

Ég lærði líka að hlusta á líkama minn. Líkaminn er stöðugt að senda okkur skilaboð – hvort sem það birtist í þreytu, spennu eða jafnvel þessari djúpu ró sem kemur þegar við gefum okkur tíma til að hvíla. Fyrir mig þýddi þetta að hætta að hunsa líkamlega verki sem höfðu fylgt mér í góðan tíma og líta á þá sem skilaboð um að hægja á mér. Með því að hlusta á líkamann, hlúa betur að honum og veita honum athygli, upplifði ég aukna orku og jafnvægi í daglegu lífi og verkirnir eru ekki lengur til staðar.


Það sem hafði þó kannski mest áhrif á mig var að læra að sitja með tilfinningum mínum. Ég hætti að flýja þær eða ýta þeim frá mér, jafnvel þegar þær voru óþægilegar. Í stað þess að reyna að komast hjá þeim, ákvað ég að sitja með þeim. Það var eins og ég hefði opnað dyr að nýjum heimi. Tilfinningar, bæði gleði og sársauki, eru eins og öldur hafsins – þær koma og fara, og það er í lagi. Þegar ég leyfði þeim að flæða í gegnum mig, án þess að dæma þær, fann ég fyrir ótrúlegri losun og dýpri innri ró.


Ég lærði líka gildi þess að staldra við áður en ég tek ákvarðanir. Að taka eina djúpa innöndun áður en ég segi „já“ eða „nei“ hefur haft gríðarleg áhrif á líf mitt. Þetta hefur gert mig betur í stakk búna til að setja skýr mörk – ekki til að loka á aðra, heldur til að opna dyr að því sem raunverulega skiptir mig máli. Þegar ég lærði að segja „nei“ við því sem ekki þjónaði mér, fann ég tíma og pláss fyrir það sem veitir mér gleði og nærir mig.


Hvernig hefur þetta breytt lífi mínu?

Þegar ég hætti að reyna að stjórna öllu og byrjaði að taka eitt skref í einu, þá opnaðist eitthvað magnað. Lífið fór að flæða og óvænt tækifæri byrjuðu að birtast. Ég áttaði mig á því að núið er staðurinn þar sem töfrarnir gerast – að einblína á það sem er að gerast í dag, án þess að missa sjónar af framtíðarsýn minni, gerir allt skýrara og léttara.


Það sem gerði þessa vegferð enn fallegri var að leyfa mér að hrasa. Ég datt vissulega stundum aftur í gömul mynstur, en í stað þess að rífa mig niður lærði ég að vera rannsakandi í eigin lífi. Mistökin urðu ekki skömm eða áfall, heldur dýrmætur lærdómur. Með þessu nýja viðhorfi – að horfa á sjálfa mig með forvitni frekar en gagnrýni – hefur lífið orðið bæði léttara, skemmtilegra, innihaldsríkara og meira skapandi.


Tímamót nýrra tækifæra

Árið 2024 var ár umbreytinga fyrir mig, bæði persónulega og faglega. Í lok árs 2023 stofnaði ég fyrirtækið mitt, og á þessu ári hefur það vaxið og dafnað. Að sjá hugmyndir mínar verða að veruleika og fá jákvæð viðbrögð frá fólki hefur verið ótrúlega gefandi. Það hefur gefið mér bæði styrk og staðfestu á minni vegferð.


Ég lauk einnig kennararéttindum sem Yoga og Yoga Nidra kennari, sem hefur opnað fyrir nýjar dyr og möguleika. Ég er nú betur í stakk búin til að styðja aðra í þeirra vegferð, með þeirri trú að við eigum öll skilið að lifa í jafnvægi og gleði.


Þegar ég horfi fram á veginn til ársins 2025, sé ég ár nýrra tækifæra og vaxtar – bæði persónulega og faglega. Ég er tilbúin að halda áfram þessari vegferð, með kærleika og þakklæti að leiðarljósi.


En hvað með þig?

Hefur þú tekið tíma til að hlusta á innsæið þitt? Til að hlúa að líkama þínum og sitja með tilfinningum þínum? Hvað myndi breytast í lífi þínu ef þú myndir byrja að efla sambandið sem þú átt við sjálfa þig?


Mig langar að bjóða þér tækifæri til að stíga fyrsta skrefið. Ég ætla að bjóða tveimur einstaklingum 2X 90 mínútna tíma í markþjálfun og Yoga Nidra – þar sem við leggjum áherslu á að róa hugann, tengjast dýpri vitund og finna skýrleika á þína sýn í lífinu.


Yoga Nidra hjálpar þér að sleppa tökunum á álagi og tengjast innri ró, á meðan markþjálfun umbreytir þessari innsýn í skýr og raunhæf skref til að styðja við þína vegferð. Þetta er einstakt ferli til að efla sambandið sem þú átt við sjálfa þig og finna nýjar leiðir fram á við.

Ef þetta hljómar eins og eitthvað sem þig langar að prófa, sendu mér póst á kolbrun@hugarthol.is og við finnum tíma saman.


Taktu fyrsta skrefið

Sambandið sem þú átt við sjálfa þig er ekki bara mikilvægt – það er lykillinn að lífsgæðum þínum. Þegar þú gefur sjálfri þér tíma og rými til að vaxa, munu aðrir þættir í lífi þínu falla betur saman.

Árið 2025 getur orðið árið þar sem þú tekur fyrsta skrefið í átt að sterkari tengingu við sjálfa þig. Ég er hér til að styðja þig á þeirri vegferð.

Kærleikskveðjur,Kolbrún

25 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page