top of page

Jafnvægi: að sitja með því sem er

Writer's picture: Kolbrún MagnúsdóttirKolbrún Magnúsdóttir


Flæði lífsins

Lífið er síbreytilegt ferli þar sem allt kemur og fer – hugsanir, tilfinningar, atburðir og fólk. Við sjálf erum eins og heiðblár himinn. Yfir okkur flæða skýin sem tákna allt sem lífið færir okkur – bæði gleðina og áskoranirnar. Þegar við lærum að sleppa takinu, án þess að halda í það jákvæða eða hrinda því neikvæða frá okkur, upplifum við raunverulegt frelsi og jafnvægi.


Himinninn breytist ekki þó skýin streyma yfir hann. Á sama hátt erum við sjálf stöðug, þrátt fyrir þær breytingar sem eiga sér stað í kringum okkur eða innra með okkur. Skýin koma og fara, en þau skilgreina ekki himininn – og það sama á við um tilfinningar okkar.

Í samfélagi dagsins er oft lögð ofuráhersla á jákvæðni og hraðar lausnir við óþægindum. En sannleikurinn er sá að allar tilfinningar eiga rétt á sér. Þegar við leyfum okkur að finna þær, án þess að flýja eða festast í þeim, gefum við sjálfum okkur rými til að gróa, styrkjast og vaxa.


Að sleppa takinu og leyfa lífinu að flæða

Þegar við reynum að halda í jákvæðar tilfinningar eða flýja þær erfiðu, myndast togstreita. Þessi togstreita getur smám saman orðið að stíflu – uppsafnaðri orku sem birtist í líkamlegri spennu, þreytu eða jafnvel veikindum. Með tímanum hættum við að hlusta á það sem líkaminn og hugurinn eru að segja okkur.


Ég man þegar ég fyrst fór að æfa mig í að „sleppa takinu“. Það var óþægilegt – eins og að opna dyrnar að herbergi sem ég hafði ekki farið inn í lengi. Þar beið óreiða af tilfinningum sem ég hafði flúið eða bælt. En þegar ég gaf þeim rými, fór ég að sjá að þær voru ekki óvinir mínir. Þær voru bara gestir sem biðu eftir að vera viðurkenndir og leyft að fara.


Þegar við sleppum takinu, gerum við okkur frjáls. Við leyfum okkur að vera heiðarleg gagnvart því sem við erum að upplifa, án þess að festast í því. Þetta snýst ekki um að „leysa“ allar tilfinningar, heldur að leyfa þeim að vera hluti af ferðalaginu.

Að sleppa tökunum þýðir ekki að vera áhugalaus eða fjarlægur, heldur meðvitaður um að við stjórnum ekki alltaf því sem gerist í lífinu. Við stjórnum hins vegar hvernig við bregðumst við. Með því að gefa tilfinningum okkar pláss – án þess að halda í þær eða dæma þær – losum við okkur við byrðina að þurfa að stjórna öllu. Það er í því flæði sem jafnvægið og innri ró búa.


Myndlíkingin um himininn og skýin hjálpar okkur að átta okkur á þessu: skýin breytast sífellt, en himinninn er alltaf sá sami. Þannig er það með okkur sjálf og tilfinningar okkar.

Yoga Nidra: Að endurtengjast sjálfum sér

Yoga Nidra er eins og innri sturta fyrir hugann og líkamann. Í þessu djúpa ástandi slökunar gefum við okkur leyfi til að sleppa takinu og endurheimta tengslin við okkar innsta kjarna. Þetta er tími þar sem hugurinn róast og líkaminn fær tækifæri til að hreinsa sig af uppsafnaðri streitu og spennu.


Ég man fyrstu skiptin sem ég prófaði Yoga Nidra. Þegar kyrrðin tók yfir fannst mér eins og ég væri að opna dyr að stað sem hafði lengi verið læstur. Upp komu minningar, hugsanir og tilfinningar sem ég hafði bælt eða verið ómeðvituð um. Í fyrstu var það óþægilegt – en þegar ég gaf þeim rými, fylgdi því léttir. Ég fann hvernig eitthvað losnaði og gaf mér rými til að anda, vera og vaxa.

Yoga Nidra kennir okkur að vera áhorfendur á okkar eigin reynslu. Í stað þess að grípa í allar hugsanir eða tilfinningar sem koma upp, leyfum við þeim einfaldlega að vera þar, án afskipta. Þannig lærum við að sleppa takinu – ekki bara á dýnunni, heldur einnig í daglegu lífi.


Þetta ferli getur verið krefjandi, sérstaklega ef við mætum gömlum tilfinningum sem við höfum forðast í langan tíma. En í því rými sem myndast, finnur þú styrk og frelsi. Þú endurtengist sjálfri þér.


Að taka ábyrgð og finna kraftinn innra með sér

Í hjarta þessa ferðalags er ábyrgð. Þegar við tökum ábyrgð á okkar eigin lífi og viðbrögðum, losum við okkur úr hlutverki fórnarlambsins og virkjum okkar innri styrk. Þetta snýst ekki um að forðast erfiðar tilfinningar heldur að mæta þeim af meðvitund og ró.


Við getum ekki alltaf stjórnað því sem gerist í lífinu, en við getum alltaf valið hvernig við bregðumst við því. Með því að staldra við og sleppa sjálfvirkum viðbrögðum, sköpum við nýjar leiðir fyrir okkur sjálf.

Ég hef sjálf upplifað hvernig þessi æfing hefur umbreytt lífi mínu. Ég er meðvitaðri um hvað gerist innra með mér og í kringum mig. Þar sem ég áður datt í fórnarlambshlutverkið, leifi ég núna forvitni og ró að leiða mig áfram. Í stað þess að berjast á móti lífinu, lærði ég að hlusta á líkama minn og innsæi. Ég fann jafnvægi sem ég vissi ekki að væri til.


Það er ekki fullkomnun sem við sækjumst eftir – heldur frelsi og tenging við okkur sjálf. Þetta er æfing, og með hverju skipti sem við iðkum getum við orðið betri í því að velja meðvitund fram yfir vana.


Lærdómurinn

Lífið mun alltaf færa okkur bæði gleði og áskoranir. Við getum ekki stjórnað því sem kemur, en við getum stjórnað því hvernig við bregðumst við því. Með því að leyfa lífinu að flæða, sleppa takinu og mæta hverri upplifun af auðmýkt og meðvitund, gefum við okkur sjálfum gjöfina að lifa í jafnvægi og ró.


Mundu: Þú ert ekki stormarnir eða skýin sem streyma yfir þig. Þú ert himinninn sjálfur. Þú ert stöðug/ur, sterk/ur og uppspretta af möguleikum. Þegar þú lærir að sleppa tökunum, býr frelsið innra með þér. Þar finnurðu innri ró, styrk og sanna lífsgleði.

Gjöf til þín: Yoga Nidra-upptaka fyrir þig

Takk fyrir að fylgja mér og sýna því áhuga sem ég geri. Það er mín von að skilaboðin mín hafi jákvæð og uppbyggileg áhrif á þína vegferð. Í tengslum við þessa grein langar mig að gefa þér upptöku af Yoga Nidra-tíma sem þú getur nýtt þér hvenær sem þér hentar.


Þessi tími mun leiða þig í djúpt slökunarástand, hjálpa þér að sleppa tökunum og skapa rými fyrir nýja orku, ró og meðvitund í lífi þínu. Ég er þakklát fyrir að fá að deila þessu með þér og vona að þessi gjöf styðji þig í átt að innri tengingu, vellíðan og jafnvægi.




Yoga Nidra; I am yoga nidra

Viltu stuðning á þinni vegferð?


  • Einkatími í Yoga Nidra

    Yoga Nidra er einstakt innra ferðalag sem hjálpar þér að slaka djúpt á, sleppa tökunum á álagi og tengjast innri ró og jafnvægi

  • Yoga Nidra & Markþjálfun

    Yoga Nidra og markþjálfun vinna saman sem heildræn aðferð til að efla bæði innri ró og ytri skýrleika

  • Markþjálfun

    Ég styð þig við að varða þína vegferð og skapa skýrleika á leiðinni fram á við


Þú getur séð nánari upplýsingar um þjónustuna hér


37 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page