Innri samskipti: Þín innri rödd mótar þína ytri veröld
Hefur þú einhvern tíma hugleitt hvaða orð þú notar í samskiptum við sjálfa/n þig? Myndir þú eiga slík samskipti við aðra manneskju? Líklega er svarið nei.
Okkur hættir oft til að tala okkur niður. Við sjáum aðeins það sem er ófullkomið eða „ekki nægilega vel gert“ – og gleymum oft hvað við höfum áorkað og hversu langt við höfum náð. En þegar við bætum samskiptin við okkur sjálf breytist margt. Við finnum aukinn innri frið, tengjumst betur eigin tilfinningum og líðan, og höfum meira úthald í að takast á við ólíkar aðstæður.
Þegar við tölum okkur upp í stað þess að tala okkur niður, eigum við auðveldara með að taka ábyrgð á eigin lífi í stað þess að festast í fórnarlambshlutverki. Við öðlumst seiglu, hugrekki og viljastyrk til að stíga inn í óttann og takast á við það sem er erfitt – í stað þess að velja alltaf auðveldu leiðina. Þetta leiðir smám saman til aukins sjálfstrausts.
Þessi breyting hefur síðan áhrif á hamingjuna okkar. Samskipti við aðra verða mun betri, við setjum okkur frekar í spor annarra og eigum auðveldara með að takast á við ágreining. Við finnum fyrir auknum drifkrafti, tökum betri ákvarðanir og höfum meiri trú á eigin getu.
Sjálftalið okkar: Grunnurinn að sjálfsmyndinni
Sjálftalið – hvernig við tölum við okkur sjálf – er grunnurinn að sjálfsmynd okkar. Það hefur áhrif á það hvernig við upplifum bæði okkur sjálf og lífið í kringum okkur.
Þegar við byrjum að taka eftir því jákvæða í lífi okkar – því sem við höfum skapað, áorkað og hvernig við höfum vaxið – byrjar lífið að taka á sig nýja mynd. Lífið er ferðalag lærdóms og vaxtar. Þegar við veljum að líta á það þannig getur hver dagur orðið tækifæri til aukinnar sjálfsvitundar og styrks.
Gróskuhugarfar: Lærdómur í stað mistaka
Hugsaðu þér þetta: Þegar þú stendur frammi fyrir áskorun eða mistökum, hvaða spurningar spyrðu þig? Oft er auðvelt að festast í neikvæðum hugsunum eins og „Af hverju fór þetta svona illa?“ eða „Af hverju get ég þetta ekki?“
Með því að tileinka okkur gróskuhugarfar (e. growth mindset) getum við breytt þessu mynstri. Við byrjum að spyrja okkur aðrar spurningar: „Hvað gekk vel?“ „Hvað hefði mátt fara betur?“ „Hvað get ég lært af þessu, og hvað ætla ég að gera öðruvísi næst?“ Þessar spurningar breyta mistökum í lærdómstækifæri. Þannig getum við haldið áfram að þroskast, í stað þess að festast í því sem fór úrskeiðis.
Að sjá tækifærin í stað hindrana
Stundum virðast hindranir svo stórar að þær skyggja á allt annað. En ef við gefum okkur svigrúm til að staldra við, skoða stöðuna með opnum huga og losa okkur við neikvæða sjálfsgagnrýni, sjáum við oft lausnir sem okkur hefði annars yfirsést.
Hugsaðu þér hvernig þér myndi líða ef þú slepptir tökunum á niðurrifshugsunum. Í stað þess að hugsa „Af hverju get ég þetta ekki?“ myndir þú spyrja „Hvernig get ég tekist á við þetta?“ Með þessari einföldu breytingu skapast rými fyrir nýjar lausnir og nýjar leiðir fram á við.
Reynslan mín af innri samskiptum
Ef ég tala út frá minni eigin reynslu, þá hef ég oft átt samtöl við sjálfa mig sem ég myndi aldrei eiga við neinn annan. Ég átti það til að tala mig niður, draga úr sjálfri mér og gagnrýna hvert smáatriði sem ég gerði.
Með tímanum hef ég þó lært að stoppa þessa rödd. Ég spyr sjálfa mig, „Myndir þú tala svona við einhvern sem þú elskar?“ Svarið er alltaf nei. Í stað þess að berja mig niður reyni ég nú að nálgast sjálfa mig af mildi og með gróskuhugarfari. Það hefur ekki aðeins breytt upplifun minni á áskorunum heldur líka veitt mér styrk til að takast á við lífið með jákvæðara viðhorfi.
Okkar innri samskipti hafa áhrif á:
Hugsanir okkar: Þær endurspeglast í tilfinningum okkar og móta hvernig við bregðumst við aðstæðum.
Lausnamiðun: Hvort við erum tilbúin að horfast í augu við vandamál eða látum þau sigla fram hjá í von um að þau hverfi af sjálfu sér.
Hugrekki í áskorunum: Gefumst við upp við fyrsta mótlæti, eða tökumst við á við það og reynum okkar besta?
Heimsmynd okkar: Sjáum við það góða í lífinu, eða aðeins það sem er erfitt og slæmt?
Heilsuna okkar: Hvernig hlúum við að okkur – bæði andlega og líkamlega? Ræktum við sjálfsást eða sjálfsniðurrif?
Sambandið við okkur sjálf er grunnurinn að vellíðan og árangri. Þegar við lærum að tala við okkur sjálf af virðingu og mildi, leggjum við grunninn að sterkara sjálfstrausti og innihaldsríkara lífi.
Lokaorð: Hugsaðu um samtalið við sjálfa/n þig sem þína helstu uppsprettu styrks. Hver hugsun, hvert orð og hver ákvörðun sem þú tekur í dag mótar hvernig þú upplifir morgundaginn. Veldu því að tala við sjálfa/n þig af mildi og vaxtarhugarfari – lífið þitt mun taka á sig nýja mynd.
Comments